Sakramenti og dýrkun Maríu

Don Bosco dreymdi draum og í honum áttaði hann sig á því að súlurnar tvær sem kirkjan getur af öryggi siglt á milli og varist árásum óvina sinna, eru María mey og hið Alhelga altarissakramenti.

„Aðeins tvennu ber að treysta mitt í allri ringulreiðinni: Dýrkun Maríu og tíðri meðtöku sakramentisins (tíðri altarisgöngu), og við ættum að nota öll ráð til að sinna ævinlega sjálf hvorutveggja og fá aðra til að stunda hið sama ætíð og alltaf“ (Heilagur Jóhannes Bosco).

Andlegar æfingar

Andlegar æfingar felast í nokkrum kyrrðardögum í þögn, þar sem boðið er upp á tækifæri til margs kyns hugleiðslu til að koma reglu á lífið, og er þar fylgt mjög náið riti heilags Ignatíusar frá Loyola um andlegar æfingar. Þær eru mikilvæg hjálp við að „gera sálina móttækilega fyrir því að nema á brott allar óreiðutilfinningar, og að því loknu að leita og finna Guðs vilja í aðstæðum lífsins, sálinni til hjálpræðis.“ Af þeirri ástæðu ráðleggjum við öllum meðlimum Voces Verbi að iðka þessar andlegu æfingar árlega.

Pílagrímsferðir

Til merkis um að við tilheyrum hinni herskáu kirkju sem gengur fylktu liði til eilífra heimkynna sinna, förum við í pílagrímsferðir til að biðja á þeim stöðum þar sem nærvera Guðs í heiminum varð mönnum sýnilegri og heillavænlegri.