Markmið æskulýðshópsins Voces Verbi er hægt að taka saman í fjórum atriðum:

Andleg trúvarnarmótun

Þar sem enginn elskar það sem hann þekkir ekki, er nauðsynlegt að unga fólkið í Voces Verbi hafi mikla þekkingu á kaþólskri trú, uppsprettu hennar, grundvelli og fjársjóðum.

Við erum þess fullviss að „skynsemi og trú eru þeir vængir tveir sem hefja anda mannsins til íhugunar um trúna“ (Jóhannes Páll II, Fides et Ratio).

Af þeirri ástæðu, ásamt mótun skynseminnar sem leyfir okkur að gefa upp ástæðurnar fyrir trú okkar (sbr. 1 Pét 3:15) viljum við rótfesta okkur í stöðugu andans lífi, sem hjálpar okkur að lifa boðskap hjálpræðisins með öllum hans kröfum og áskorunum, í fullri vissu þess að aðeins Kristur hefur orð eilífs lífs (sbr. Jh 6:68).

Boðun trúar í menningunni

Þar sem „hið góða breiðist gjarnan út“ og þar sem „vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt“ (P 4:13-21), vill unga fólkið í Voces Verbi leggja sitt af mörkum með öllum krafti sínum til þess að fagnaðarboðskapurinn megi upplýsa og gegnsýra gervallan raunveruleika mannsins.

Þess vegna verða allir félagarnir að helga sitt eigið líf og boðun með góðu fordæmi og orðum í sínu umhverfi í samræmi við eigin köllun og skyldur.

Við erum öll verjendur trúarinnar og trúboðar og við „fyrirverðum okkur ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir“ (sbr. Róm 1:16), og við vitum að ef við játum Krist frammi fyrir mönnum, mun hann einnig kannast við okkur frammi englum Guðs (sbr. Lk 12:8).

Kaþólsk vinátta

Á okkar tímum finnst mörgu ungu kaþólsku fólki eins og það standi eitt og þau séu „ókunnug“ í eigin umhverfi. Þessi einsemd veldur því að margir verða þróttlitlir í trúnni og jafnvel glata henni.

Voces Verbi vill skapa kaþólskt umhverfi þar sem raunveruleg vinátta getur þrifist og ungt fólk deilir gleði sinni, en einnig hugsjónum fagnaðarerindisins, ást á kirkjunni, ást á hreinleikanum, höfnun „anda heimsins“, og gleði þeirra hluta sem tilheyra Guði o.s.frv.

Að finna eigin köllun

Eins og hl. Alberto Hurtado sagði, „framtíð manns hvílir á tveimur eða þremur jáyrðum, tveimur eða þremur neitunum hjá ungum manni á árabilinu fimmtán til tuttugu.“

Voces Verbi vill bjóða upp á hagkvæmar aðstæður svo að meðlimirnir geti með skýrum hætti fundið sína eigin kristnu köllun, bæði hvað snertir líf í trúarreglu og gagnvart hjónabandi og fjölskyldulífi, í þeirri fullvissu að aðeins með því að fylgja fullkomlega hinu guðdómlega öðlumst við þann frið og þá gleði sem Guð einn getur gefið.